Karellen

Leikskólinn Álfaborg er þriggja deilda leikskóli sem staðsettur er í nýju húsnæði í Reykholti, Biskupstungum. Nýtt húsnæði leikskólans var tekið í notkun í október 2019 og er hið glæsilegasta.

Í leikskólanum Álfaborg starfar samstillt, glaðlynt og metnaðarfullt starfsfólk og mikil áhersla er lögð á góðan starfsanda og vellíðan barna. Auk þess er mikil og góð samvinna á milli leikskólans og grunnskólans Bláskógaskóla í Reykholti.

Hugmyndafræði Reggio Emilia hefur verið innblástur fyrir skólastarfið í Álfaborg í mörg ár. Þessi hugmyndafræði sem þróað var í Reggio Emilia getum við ekki yfirfært beint, þar sem umhverfið og aðstæður eru öðruvísi hér á landi. Því störfum við í anda Reggio Emilia, byggt á okkar túlkun kennslufræðinnar. Þetta er viðhorf með vel ígrunduðum áherslum; að hlusta og horfa, að vinna með uppeldisfræðilegar skráningar og að vinna í kringum þemu og viðfangsefni sem börnin hafa áhuga á.


Loris Malaguzzi (1920-1994):

Loris Malaguzzi var frumkvöðull og hugmyndasmiður leikskólastarfsins í Reggio Emilia á Ítalíu. Upphaf leikskólanna í Reggio Emilia á norður Ítalíu eiga sér sérstæða sögu sem hefst við lok seinni heimstyrjaldarinnar. Mæður risu upp og hófust handa við að byggja leikskóla til þess að börnin þeirra fengju betra líf. Þær vildu skóla þar sem börnin gætu þróað sjálfstæða hugsun og vinnubrögð. Þessi starfsaðferð hefur heillað fólk víða um heim og eftir henni er starfað í mörgum leikskólum. Hér á landi eru einnig nokkrir leikskólar sem vinna og starfa í anda hugmyndafræði Reggio Emilia.

Sálfræðingurinn og kennarinn Loris Malaguzzi var á móti stífum og stöðluðum uppeldiskenningum og taldi að þær ættu að geta tekið sífelldum breytingum samfélagsins.

Einkunnarorð Reggio Emilia er að ,,Börn hafa hundrað mál en tekin eru frá þeim níutíu og níu.” Í grófum dráttum er átt við að í Reggio eru börnin hvött til að nota málin sín hundrað. Þau fá að kanna umhverfi sitt með öllum skynfærum og tjá sig á sem fjölbreyttastan hátt t.d. með orðum, teikningum, tónlist, hreyfingu o.fl.

Hugmyndafræðin:

Lykilhugmynd Reggio Emilia hugmyndafræðinnar er myndin af barninu sem frá fæðingu er upptekið af því að þróa samband sitt við umheiminn. Börn eru forvitin og áhugasöm og þau nálgast umhverfið sitt með öllum skynfærum og getu og beita fjölbreyttum aðferðum til að upplifa hann, skilja og skynja á hundrað vegu.

Sjónrænt uppeldi og áhersla á tilfinningar og tjáningu barnanna er stór þáttur í Reggio m.a. vegna þess að það er andstæðan við það að börnin séu einungis viðtakendur. Það hvetur til skapandi og virkrar hugsunar og eykur sjálfstæði barnanna og trú á þeirra eigin getu. Eitt af því sem einkennir þessa stefnu er sú virðing sem borin er fyrir hugmyndum barnanna og verkum þeirra. Þau taka sjálf þátt í að skipuleggja verkefni sín og starfið í heild. Áhersla er lögð á samtal barnanna sjálfra. Mikilvægt er að börnin rannsaki og velti fyrir sér hlutunum. Spurnarorðin hvað, hvernig og hvers vegna eru mikið notuð til að leiða samtöl og hvetja til virkrar hugsunar. Hlutverk kennarans í Reggio er að leita að og einblína á styrkleika hvers og eins barns þ.e. a.s. horfa á það sem börnin geta. Hann reynir að sjá fyrir sér hvað börnin fá út úr upplifunum, hvernig auka megi gæði þeirra og dýpka þýðinguna sem styður þau í að þroska hæfileika sína og eykur gæði námsins

Mikil áhersla er á myndsköpun og taldi Malaguzzi að í henni færi fram mikið nám. Aðaláherslan í myndsköpun er á sköpunarferlið sjálft, það sem gerist á meðan barnið er að skapa því sköpun er hornstein þroskaferlis barna. Mikilvægt er að sýna verkinu virðingu og jákvæða athygli.

Uppeldisleg skráning er mikið notuð í leikskólum sem vinna í anda Reggio. Skráningin getur haft góð áhrif á starfið því hún gefur miklar upplýsingar t.d. um kunnáttu, áhugasvið, hvernig barnið stendur sig svo eitthvað sé nefnt. Skráningin gefur einnig foreldrum sem og öðrum sem koma að barninu gleggri mynd af því hvað og hvernig börnin læri og jafnvel hvernig sé hægt að læra af þeim.

Í Reggio er unnið með þema. Þá er eitthvað eitt tekið fyrir í einu t.d. dýr, náttúra, víkingar o.s.frv. Síðan er viðfangsefnið skoðað ofan í kjölinn, frá mörgum sjónarhornum og reynt er að virkja öll skilningarvit barnanna til að dýpka vitneskju þeirra um viðfangsefnið.

Hlekkkur inn á heimasíðu Reggio Children: http://www.reggiochildren.it/?lang=en

Barn hefur hundrað mál en frá því eru tekin níutíu og níu.

Skóli og menning skilja höfuðið frá líkamanum.

Við neyðumst til að hugsa án líkama og starfa án höfuðs.

Leikurinn og vinnan veruleikinn og ímyndunaraflið vísindi

og hugarheimar eru gerð að andstæðum.

(þýðandi:Aðalsteinn Davíðsson)




Hér fyrir neðan er slóð á skólastefnu Bláskógabyggðar: :

https://www.blaskogabyggd.is/wp-content/uploads/20...ÓLASTEFNA_2018.pdf



© 2016 - 2024 Karellen