Karellen

Einkunnarorð leikskólans

Í upphafi vinnu við skólanámskrá var ákveðið að finna gildi eða einkunnarorð sem við vildum hafa að leiðarljósi í framtíðinni. Niðurstaðan var; virðing, vellíðan og vinátta.

Virðing

Þegar við berum virðingu fyrir fólki felur það í sér að við sýnum því heiður. Virðing endurspeglast í þeirri kurteisi sem við sýnum hvert öðru í leik og starfi, hvernig við tölum við hvert annað, hvernig við tölum um það og hvernig við förum með eigur þess. Í Álfaborg leggjum við okkur fram við að kenna börnunum að vera góð hvert við annað og að bera virðingu fyrir sjálfum sér, öðrum og umhverfinu. Við kennum þeim að allir eru jafnir á sama grundvelli óháð stöðu, útliti, kyni eða þjóðerni. Annað lyk­il­atriði er að kenna þeim samkennd þannig að þau læri að geta sett sig í spor annara. Við leggjum upp úr hjálpsemi og æfum börnin í samhjálp í athöfnum daglegs lífs.

Vellíðan

Í því fellst meðal annars jákvæðni, hlýja og gleði sem einkennir skólastarfið okkar.

Að byrja í leikskóla þýðir fyrir flest börn að stíga sín fyrstu skref í samfélaginu (Kristín Dýrfjörð, 2009; Siraj-Blatchford, og Clarke, 2000; Vandenbroeck, 2015; Vandevoort og Libin, 2016). Þessi félagslega þátttaka verður þeim spegill sem endurspeglar það hvernig samfélagið horfir á þau og segir þeim hvernig þau ættu að horfa á sig sjálf. Á þessum tímamótum standa börn frammi fyrir mikilvægum spurningum svo sem „hver er ég?“ og „er í lagi að vera ég?“. Vellíðan barna á leikskólum er áríðandi því að börn sem upplifa ekki vellíðan, þrátt fyrir að vera í umhverfi sem einkennist af gæðastarfi, munu ekki læra. Þessi vellíðan er nátengd upplifuninni að tilheyra eða vera velkominn (Vandenbroeck, 2015).

Vandenbroeck (1999) telur að börn byrji að þróa sjálfsmynd og sjálfshugmynd (e. selfconcept) sína á unga aldri. Í byrjun leikskólagöngunnar, þ.e. áður en börnin verða þriggja ára, eru þau búin að uppgötva að þau eru fólk og eru smám saman að uppgötva hvers konar manneskjur þau gætu orðið. Þau skynja að ef þau tilheyra ákveðnum hópi þýðir það að þau tilheyra ekki öðrum hópi. Í leik er hægt að sjá tilraun barna til að tileinka sér hlutverk en oft er hægt að sjá að börn nota fleiri staðalímyndir en eru fyrir hendi í kringum þau. Eftir þriggja ára aldur eru börn farin að skilgreina sig sjálf byggt á fleiru en kyni eða húðlit. Þau eru þá byrjuð að taka eftir meiri fjölbreytni í menningu og taka að flokka mismunandi þætti til að auðvelda skilning sinn á þessum flókna heimi. Börn sem tilheyra ráðandi menningarhópi og fá ekki næg tækifæri til að komast í kynni við fjölbreytni, þrátt fyrir næga fjölbreytni í nærumhverfinu, munu sannfærast um að það sé bara ein rétt leið til að vera til - þeirra leið (Vandenbroeck, 1999).

Ein leið til að byggja upp jákvætt viðhorf gagnvart öðrum og koma í veg fyrir staðalímyndir eru myndir tengdar börnum á deildinni, svo sem fjölskyldumyndir. Þannig er foreldrum sýnd virðing og stuðlar að samvinnu við foreldra. Með því að hafa slíkar myndir sýnilegar verður fjölbreytni barna og fjölskyldna þeirra sýnilegri öðrum. Þar með standa börnin frammi fyrir fjölbreytileika samfélagsins í tengslum við vini sína.

Siraj-Blatchford og Clarke (2000) benda á að það hvernig fólk horfir á börn og bregst við þeim (e. respond) og fjölskyldum þeirra hefur áhrif á þróun sjálfsmyndar barna. Leikskólakennarar eiga að þeirra mati að skoða hegðun sína í þessu ljósi, spyrja sig hvort þau sýni fordóma og einnig að læra hvernig á að vinna með þetta á jákvæðan hátt. Að styðja við þróun sjálfsmyndar barna er aðalhlutverk starfsfólks Álfaborgar.

Vinátta

Vinátta er mikilvæg fyrir alla en flókin og oft á tíðum erfið, en á sama tíma afskaplega dýrmæt. Í Álfaborg leggjum við áherslu á að samfélagið í leikskólanum einkennist af umburðarlyndi, virðingu og að skapa umhverfi þar sem börn sýna hvert öðru umhyggju. Við kennum börnunum að bregðast við neikvæðri hegðun og leggjum ríka áherslu á að þau séu góð hvert við annað.

Þar kemur vináttubangsinn Blær sterkur inn sem forvörn gegn einelti og er það hlutverk starfsfólks að kenna og fræða. Blær er táknmynd vináttu í verkefninu. Blæ fylgja litlir hjálparbangsar sem ætlaðir eru hverju barni sem tekur þátt í Vináttu-verkefninu. Blær og hjálparbangsarnir tákna traust og vináttu og er ætlað að minna börnin á að passa upp á aðra og að vera góður félagi allra. Vináttu-verkefnið stuðlar að samræðum fyrir börn um slæma hegðun, einelti og fræðir þau um leiðir til að takast á við vondar aðstæður. Segja frá og segja nei.

© 2016 - 2024 Karellen