Karellen

Í leikskólanum Álfaborg er litið til starfsaðferða í anda leikskólastarfs sem er kennt við Ítölsku borgina Reggio Emilia. Sjónrænt uppeldi og áhersla á tilfinningar og tjáningu barnanna er stór þáttur í starfi Álfaborgar. Það hvetur til skapandi og virkrar hugsunar og eykur sjálfstæði barnanna. Þau taka sjálf þátt í að skipuleggja verkefnin sín og starfið í heild. Þau læra að bera ábyrgð og taka afleiðingum. Oft er talað um að kennarinn eigi að hlusta meira en að tala og því er áhersla lögð á samtal barnanna sjálfra. Mikilvægt er að börnin rannsaki og velti fyrir sér hlutunum. Orðin hvað, hvernig og hvers vegna eru mikið notuð til að leiða samtöl og hvetja til virkrar hugsunar. Mikil áhersla er á myndsköpun sem námstæki. Aðaláherslan í myndsköpun er á sköpunarferlið sjálft og það sem gerist á meðan barnið er að skapa.

Uppeldisleg skráning er mikið notuð í leikskólum sem vinna í anda Reggio Emilia. Skráningin getur haft góð áhrif á starfið því hún gefur miklar upplýsingar t.d. um kunnáttu, áhugasvið, hvernig barnið stendur sig svo eitthvað sé nefnt. Skráningin gefur einnig foreldrum sem og öðrum sem koma að barninu gleggri mynd af því hvað og hvernig börnin læri og hvernig sé hægt að læra af þeim.

© 2016 - 2024 Karellen