Karellen

Í 18. gr. laga um leikskóla nr. 90/2008 er kveðið á um að hver leikskóli skuli meta með kerfisbundnum hætti árangur og gæði skólastarfs. Sveitarfélögin eigi síðan að fylgja innra matinu eftir þannig að það leiði til umbóta í skólastarfi skv. 19. gr. laganna.

Markmið mats og eftirlits með skólastarfi og þar með markmið innra mats, er að tryggja að starfsemi leikskóla sé í samræmi við ákvæði laga, reglugerða og aðalnámskrá leikskóla. Innra mati er ætlað að auka gæði skólastarfsins og stuðla að umbótum, tryggja að réttindi barna séu virt og að þau fái þá þjónustu sem þau eiga rétt á skv. lögum. Innra matinu er einnig ætlað að veita aðilum skólasamfélagsins og fræðsluyfirvöldum upplýsingar um skólastarfið, árangur þess og þróun.

Aldrei er hægt að skoða allt skólastarfið í einu vegna þess að það er bæði flókið og margþætt. Ef vel á að takast er mælt með því að taka fyrir nokkra þættií einu, þ.e. lítið umfang á meðan starfsfólk er að tileinka sér verklag innra mats. Mikilvægt er að gera áætlun framm í tímann til að tryggja að matið nái til allra sviða skólastarfsins og mælt er með 3 – 5 árum í það ferli. Matsþáttunum er raðað á áætlunina sem afmarkar þau matssvið sem taka á fyrir á hverju ári. Mikilvægt er þó að endurskoða áætlunina á hverju ári því oft koma upp brýn málefni sem taka skal fyrir.Matsáætlun Álfaborgar má sjá hér að neðan.

Hér að ofan í kaflanum leikskólastarf í Álfaborg er tekið fram hvaða þætti við ætlum að leggja áherslu á í vetur. Þar er tekið fram hvað við ætlum að meta og hvernig við ætlum að gera það svo sem að elstu börnin taka þátt í spurningarkönnun. Auk þess er vellíðan og þátttaka barna metin með notkun „The Leuven scales of wellbeing and envolvement“ eftir Próf. Ferre Laevers. Ánægja starfsfólks og foreldra er metin út frá könnun frá skólapúlsinum.Mikilvægt er að líta á starfið með gagnrýnum augum og endurskoða markmið og áætlanir.

Til eru margar góðar leiðir til að meta skólastarf og sem dæmi má nefna nokkrar leiðir sem við erum vön að nota í upplýsingaöfluninni.

  • Starfsmannasamtöl
  • Foreldrasamtöl
  • Spurningalistar til starfsfólks og foreldra
  • Mat barna á skólastarfinu. (Broskarlakönnun, spurningakönnun og The Leuven scales of wellbeing and envolvement)

Niðurstöður og úrbótaáætlun mun síðan fylgja starfsskýrslunni sem leikskólastjóri skilar til skólanefndar í vor.







© 2016 - 2024 Karellen